Skelfileg dauðsföll hafa átt sér stað í Reynisfjöru og Kirkjufjöru við Vík í Mýrdal. Ógnarsterk aldan hefur hrifsað fólk fyrirvaralaust á haf út. Hvaða kraftar leysast úr læðingi við þessar aðstæður? Við hvaða náttúruöfl er að etja? Hvernig á að varast öldurnar? Hvernig er mögulega hægt að bjarga sér ef aldan grípur mann? 

Á fáum strandsvæðum í heiminum getur aldan orðið eins há og orkumikil og við suðurströnd Íslands. Í verstu og dýpstu lægðunum með tilheyrandi ofsafenginni suðvestanátt hefur ölduhæðin við suðurströndina mælst sú mesta sem um getur í veröldinni. Í strandverkfræði er talað um kenniöldu. Hugtakið kennialda er notað til þess að lýsa sjólagi á tilteknum tíma.  Kennialdan er meðalhæð þess þriðjungs af öldunum sem mælast hæstar. Oft getur hæsta aldan í tilteknum kringumstæðum, í tilteknu sjólagi, verið helmingi hærri en kennialdan. Við aðstæður þar sem kennialdan er þrír metrar getur hæsta aldan því verið allt að sex metrar. Þessar hæstu öldur geta verið stórhættulegar, ekki bara vegna þess hversu háar þær eru og kraftmiklar, heldur líka vegna þess hversu ófyrirsjáanlegar þær eru.

„Þessi blanda skapar hættu: Fullt af fólki og ófyrirsjáanlegt brim.“

“Þeir sem kunna að umgangast fjöru vita að maður á aldrei að snúa baki við sjóinn í langan tíma. Maður verður að vera vakandi,” segir Sigurður Sigurðsson strandverkfræðingur hjá Vegagerðinni. Reynisfjara og Kirkjufjara eru í sjálfu sér ekki mikið hættulegri staðir en aðrir staðir á strandlengjunni á Suðurlandi, segir Sigurður. Öldurnar geta alls staðar gripið mann. Það sem gerir þessa staði hins vegar hættulegri er fegurð þeirra og aðdráttarafl. Hundruðir þúsunda ferðamanna koma að Reynisfjöru á ári hverju til að líta þennan töfrandi stað augum; Reynisdranga, svartan sandinn, stuðlabergið, brimið og Dyrhólaey. Þessi blanda skapar hættu: Fullt af fólki og ófyrirsjáanlegt brim.

Brimið í Kirkjufjöru

Krafturinn getur verið gríðarlegur í briminu. Í aftakaveðri í janúar 1990 mældust við suðurströnd Íslands hæstu öldur sem þá höfðu nokkru sinni mælst í heiminum. Kennialdan var 16,4 metrar á hæð. Hæstu öldur fóru yfir 25 metra. Það er eins og átta hæða blokk. Á milli öldutoppanna mældust mest 600 metrar og tíminn milli aldanna, sveiflutíminn, var allt að 20 sekúndur. Þótt dýptin við fjöruborðið hafi síðan úrslitaáhrif á það hversu há aldan er þegar hún brotnar á landinu — hún lækkar við minna dýpi — þá er rétt hægt að ímynda sér hvernig kringumstæður hafa verið í Reynisfjöru í slíku fárviðri, svo ekki sé talað um á háflóði þegar dýptin er mest.

Við svona aðstæður eru ferðamenn ekki á ferli með myndavélar. Hættan skapast mun fremur á venjulegum dögum þegar urmull af ferðamönnum spásserar á sandinum og nýtur sjónarspilsins. Í fjörunni gerast hlutirnir hratt. Hér er dæmi: Að morgni 10.febrúar 2016 stóð fertugur erlendur ferðamaður upp á u.þ.b. 50 cm háum stuðlabergssteini sem liggur þarna nokkra metra frá stuðlaberginu í Reynisfjalli. Hann var á ferð um Ísland ásamt eiginkonu sinni. Hann var við myndatöku. Skyndilega kemur alda, ein af þessum stóru öldum sem eru miklu hærri en kennialdan. Hún brotnar á steininum og maðurinn missir fótana. Hann sogast út með öldunni og drukknar.

„Flestu fólki reynist nógu erfitt að höndla kuldann, þótt ekki væri meira.“

Þegar alda byltir fólki í fjöruborði getur ýmislegt gerst. Fólk getur t.d. rotast ef það fellur á grjót. Þá er voðinn vís. Eins getur fólk einfaldlega átt erfitt með að standa upp í fjörunni þegar sjórinn er kominn í sandinn. Sandurinn er einkorna og grófur. Þegar aldan rennur inn í hann í upprennslinu verður jarðvegurinn svo óstöðugur að auðvelt er að falla við. Í útsoginu rennur sjórinn aftur í gegnum mölina á miklum hraða og jarðvegurinn er enn óstöðugri. Við þessar aðstæður getur verið ákaflega erfitt að standa í lappirnar.

Fjöldi fólks lætur lífið um víða veröld með þessum hætti, í útsogi öldunnar, á ári hverju. Nokkuð deildar meiningar eru um það hvað sé best að gera til þess að reyna að bjarga sér ef aldan grípur mann. Klassískar ráðleggingar, sem sjá má á leiðbeiningarskiltum víða á strandsvæðum í Bandaríkjunum, ganga út frá því að fólk eigi alls ekki reyna að synda gegn útsoginu aftur að landi. Straumurinn sé einfaldlega of kraftmikill til þess að fólk eigi möguleika. Þess í stað eigi fólk að láta sig berast með út með soginu, þar til straumurinn minnkar, og freista þess þá að synda samsíða landinu og þoka sér nær því, til dæmis að næsta tanga.

Þetta getur augljóslega verið hægara sagt en gert, sérstaklega í íslenskum aðstæðum þar sem sjórinn er jökulkaldur. Flestu fólki reynist nógu erfitt að höndla kuldann, þótt ekki væri meira. Fólk sem er óvant miklum kulda missir til dæmis að öllum líkindum stjórn á andanum þegar í sjóinn er komið. Það nær ekki að einbeita sér að því að draga djúpt andann og ná stjórn á önduninni sem er lykilatriði. Og fólk dofnar.

Engu að síður bendir margt til að þetta sé raunhæfasta leiðin til að bjarga sér. Eða — og þetta er öndverður skóli í þessum fræðum — að gera ekki neitt. Árið 2010 birtist grein í tímaritinu Marine Geology, eftir Jamie MacMahan og fleiri, sem olli straumhvörfum. Þar halda höfundar því fram, á grunni umfangsmikilla rannsókna, að best sé í raun og veru að gera ekki neitt ef útsogið tekur mann. Nái maður að lifa af í sjónum með því að troða marvaðann, og halda þannig í sér hita, séu yfirgnæfandi líkur á að hafið beri mann aftur að landi innan nokkurra mínútna. Höfundar halda því fram að það sé beinlínis verra að reyna að synda nokkuð, fólk eigi bara að láta sig berast. Straumar í þessum aðstæðum séu það ófyrirsjáanlegir að ef fólk reyni að synda í einhverja átt séu um helmingslíkur á að það syndi gegn straumnum sem annars myndi bera það að landi.

„Í Bandaríkjunum drukkna um 100 manns í útsogi á ári hverju.“

Um þetta er hins vegar deilt af töluverðum ákafa. Aðrar rannsóknir sýna að í raun er ekkert eitt ráð hið eina rétta. Í öllu falli ríkir samkomulag um það, að fólk eigi aldrei að reyna að synda beint að landi, gegn útsoginu. Hvort betra sé að láta sig berast eða synda samsíða landi, um það er deilt. Burtséð frá þeirri deilu, þá er óhætt að segja að bestu ráðin gegn dauðsföllum felist í öðrum hlutum. Í Bandaríkjunum drukkna um 100 manns í útsogi á ári hverju. Tölur sýna hins vegar að strandverðir bjarga upp undir 50 þúsund manns á ári frá drukknun í þessum ástæðum. Besta ráðið við hættunni í Reynisfjöru myndi felast í öflugri og viðvarandi strandgæslu, eins og margir hafa bent á.

Annað er líka hægt að gera. Sigurður Sigurðsson og samstarfsfólk hjá Vegagerðinni vinnur nú hörðum höndum að því að þróa ölduspákerfi fyrir Reynisfjöru og Kirkjufjöru. Til verkefnisins hefur fengist styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Vegagerðin safnar þegar upplýsingum um öldugang og sjólag á þessu svæði og á þeim grunni yrði spákerfið byggt. Með þessu móti væri hægt að koma upp viðvörunarkerfi í fjörunni, þar sem t.d. rauð ljós gæfu ferðafólki til kynna að aðstæður væru einstaklega hættulegar.

Besta forvörnin er auðvitað sú að fólk sem ferðast um hættulega staði eins og Reynisfjöru sé sjálft mjög upplýst, taki enga áhættu og sé alltaf með það hugfast að stóra aldan getur alltaf verið sú næsta. Þannig að:

Ekki snúa baki í sjóinn.