Það vill henda hjá fólki sem hreyfir sig mikið að það fái verki. Af nógu er að taka en við ætlum að láta nægja að fjalla hér stuttlega um tvo algenga kvilla, að sinni. Annar í hné, hinn í hálsi.

Af hnjám

Sumir fá alltaf verki í hnén þegar þeir hlaupa. Hjá sumu fólki liggur hnéskelin þannig að þetta er óhjákvæmilegt. Það sem er hægt að gera við þessu er að hlaupa á mjúku undirlagi svo sem skógarstígum eða möl og sleppa alfarið hlaupum á malbiki eða steypu og í brekkum. Styrkja fótvöðva með æfingum og lengja hlaup ekki meira en 10% á milli vikna. Fara í hlaupamælingu og vera í góðum skóm. Þú spyrð: en af hverju hlaupa? Svarið er: þú lifir að meðaltali 3 árum lengur en þeir sem hlaupa ekki og getur þess vegna lokið háskólanámi á sama tíma og jafnaldri þinn sem ekki hleypur liggur í kirkjugarði. Toppaðu það.

Góðir hálsar

Hálsrígur er algengur hjá þeim sem synda mikið. Yfirleitt liggur ástæðan í rangri líkamsbeitingu í sundtökunum. Í skriðsundi t.d. er mikilvægt að reisa höfuðið sem allra minnst. Mikilvægt er að horfa niður á milli andartaka og láta hálsinn liggja sem mest í beinni línu í framhaldi af líkamanum. Mannshöfuðið er þungt. Það er heil fimm kíló að meðaltali. Ef hálsinn er notaður til að reisa höfuðið á sundi yfir langa vegalengd myndast óeðlilegt álag.