Tómas Guðbjartsson, læknir og fjallaáhugamaður, smalaði þeim saman og náði þessari skemmtilegu mynd í móttöku á Bessastöðum í byrjun sumars þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heiðraði Vilborgu Örnu Gissurardóttur í tilefni af því að hún kleif Everest fyrst íslenskra kvenna. Hér eru samankomnir allir Íslendingar sem náð hafa toppi Everest. Tómas segir að þrátt fyrir margar tilraunir hafi honum aldrei áður tekist að safna saman öllum þessu góðu vinum sínum á mynd. Frá vinstri og með árinu sem þeir klifu fjallið; Ingólfur Geir Gissurarson (2013), Hallgrímur Magnússon (1997), Leifur Örn Svavarsson (2013), Vilborg Arna Gissurardóttir (2017), Haraldur Örn Ólafsson (2002), Einar K. Stefánsson (1997) og Björn Ólafsson (1997). En núna tókst það:

„Það er skemmtileg tilviljun að Vilborg Arna náði toppnum upp á dag 20 árum á eftir fyrstu Íslendingunum; þeim Birni Ólafssyni, Einkari K. Stefánssyni og Hallgrími Magnússyni.” segir Tómas. Hann segir það sérlega ánægjulegt að Íslendingar eigi nú afrekskonu sem náð hafi hæsta tindi veraldar, enda sé Vilborg mikilvæg fyrirmynd, vissulega fyrir karla en sérstaklega þó fyrir ört vaxandi hóp kvenna sem stunda fjallamennsku hér á landi. „Að mínu mati er afrek hennar eitt stærsta afrek í íslenskri fjallamennsku um árabil og eitt mesta afrek íslenskrar íþróttakonu frá upphafi.” segir Tómas.