Ég er með magnaða vöru til sölu. Hún gerir þig hraustari, orkumeiri, bætir svefn, litarhaft, eykur hamingju og jafnar lund. Það er hægt að sérhanna hana að þínum þörfum. Samt sem áður kostar hún nánast ekki neitt, en þú þarft að nota vöruna svo hún komi að gagni.

Karen Kjartansdóttir skrifar

Einhvern veginn svona væri hægt að skrifa um hreyfingu. Við vitum þetta flest. Samt sem áður hættir okkur til að hætta að sinna þessum mikilvæga þætti án þess að kunna á því einhverja eina skýringu.

Stundum vantar okkur bara leiðarvísi að hreyfingu, fólk sem rífur mann áfram og áfangastaði til að stefna á. Rétt eins og það er ekki nóg að vita að maður á að borða hollan mat, maður verður að þekkja uppskriftir, læra að njóta þess að útbúa matinn en um leið vera duglegur að brydda upp á nýjungum.

„Og þið vitið hvað gerist ef maður lætur bara vaða, ákveðinn í að lenda standandi en svo sem ekki með neitt annað plan. Það gerist bara eitthvað gott og frelsandi.“

Við þekkjum flest stundirnar þegar við finnum að lóðin er búin að þyngjast, kílómetrinn búinn að lengjast og við búin að stækka á stöðum sem við höfðum ekki hug á að bæta á okkur. Sjálf var ég akkúrat á þeim stað þegar ég skráði mig í Landvættaþjálfun. Vinkona mín stakk upp á þessu. Án þess að hugsa alveg til enda hvað fólst í þessu ákvað ég að skrá mig og borga. Þetta hljómaði bara svo spennandi. Ég vissi að ef ég færi að hugsa of mikið um þetta yrði ég hrædd, alveg viss um að ég hefði ekki tíma og gæti þetta ekki.

Og þið vitið hvað gerist ef maður lætur bara vaða, ákveðinn í að lenda standandi en svo sem ekki með neitt annað plan. Það gerist bara eitthvað gott og frelsandi.

Mér hafði leiðst. Ég vissi að ég yrði að fara að hreyfa mig aftur. Ég bara fann ekki næga löngun til að fara inn í líkamsrækt að trimma á bretti og hafði ekki hugarflug í annað. Það var líka bara svolítið átak að byrja á ný og sætta sig við að vera ekki í neinu formi heldur væri talsverð vinna framundan. Mér leið líka ekkert voðalega vel, hafði leiðst svolítið í vinnunni en vissi ekki hvað ég átti að fara gera annað. Hafði ekki yfir neinu að kvarta en vantaði samt aðeins raunverulega gleði og spenning. Landvættirnir virtust óskhyggja hinnar þreyttu úthverfakonu en samt eitthvað svo spennandi. Eða reyndar, þá fannst mér fyrsta þrautin hljóma óyfirstíganleg þegar ég tók að skoða allt betur.  Það er að segja 50 km skíðaganga með 1100 m hækkun. Ég leit samt aðeins framhjá henni. Í myrkum febrúar virðast mánaðarmótin apríl/maí svo órafjarri. Ég byrjaði í raun hreyfinguna á ný með því að skella mér á skriðsundsnámskeið í Kópavogslaug og eftir slíka æfingu var ákvörðun um að láta vaða og kaupa gönguskíði tekin í kalda pottinum.

„Þetta snýst ekki um að kunna heldur gera — og allt í einu fer maður að kunna eitthvað smá.“

Þar sem ég kunni ekkert á skíði finnst mér ég hafa sýnt ævintýralegt kæruleysi þegar ég straujaði kortið mitt daginn eftir. Helst óttaðist ég að þessi fallegu skíði yrðu vandræðalegur minnisvarði um væntingar til míns eiginn dugnaðar. Vonbrigði sem ég yrði reglulega minnt á þegar ég liti inn í geymslu.

Eftir frábært undirbúningsnámskeið fyrir Fossavatnsgönguna á Ísafirði urðu gönguskíðin meira spennandi. Skyndilega var maður til í að skella sér frá Sigöldu og inn í Landmannalaugar og til baka á skíðum. Félagsskapurinn verður þess svo valdandi að maður tekur þetta með mottó pönksins að leiðarljósi. Þetta snýst ekki um að kunna heldur gera – og allt í einu fer maður að kunna eitthvað smá.

„Hvernig verðleggur maður svona lagað?“

Ég hafði aldrei notað fjallahjólið mitt að ráði. Þekkti engar sérstakar leiðir og allt óx mér í augum. Þá er nú gott að vera meðlimur í hóp sem hefur pönkið að leiðarljósi og bara gerir hluti. Hér þarf samt mögulega að taka fram að vitanlega eru hlutirnir gerðir undir leiðsögn fagfólks. Þetta eru engir brjálæðingar (þótt manni finnist það stundum).

Ég get svo varla beðið eftir því að fara synda og hlaupa í sumar. Þetta Landvættaævintýri æsir mann bara upp í frekari æfingar og ferðir, rífur mann út úr þægindarammanum og kynnir mann fyrir einhverju sem er framandi en samt svo nálægt manni. Fær mann til að taka ákvarðanir sem voru áður bara draumar.

Hvernig verðleggur maður svona lagað? Í það minnsta finnst mér ég hafa gert einhver bestu kaup síðari ára þegar ég ákvað að láta vaða og bara byrja án þess að hugsa mikið út í afleiðingarnar.