Birna vinkona mín nefndi það við mig hvort við ættum að skrá okkur í Landvættina. Eftir stuttan umhugsunartíma og kynningu á þrautunum ákvað ég að slá til.

Þórey Vilhjálmsdóttir skrifar 

Ég leit á þetta sem upphafið af nýjum tíma í mínu lífi. Síðustu ár hafa verið stormasöm og heilsan ekki alveg uppá það besta. Endalaust einhver slappleiki, skjaldkirtissjúkdómur, höfuðverkir ofl. Það sem hefur gefið mér einna mesta gleði síðustu árin eru fjallgöngur, hjólaferðir, sjósund og almenn útivist. Nú var tækifærið að taka þetta alla leið, skora þetta slen og þennan slappleika á hólm.  Þetta var góð ákvörðun.

Ég náði að klára Fossavatnsgönguna þann 28.apríl í fyrra. Það var stórkostleg tilfinning, tilfinningin að ná markmiði sem þessu, upplifa sig sem sigurvegara. Ég náði ekki bara að klára, heldur einnig að njóta. Fyrir utan það hvað við vorum heppin með veður þá var ég alveg hárrétt undirbúin; með rétta búnaðinn, búin að æfa vel, rétt nærð, með rétta hugarfarið og í frábærum æfingahópi þar sem maður upplifir mikla hvatningu, stuðning og samkennd.

„Ég hefði ekki trúað því hálfu ári áður, þegar ég gat ekki enn stigið í fótinn eftir að hafa tognað illa og var endalaust slöpp, að ég ætti eftir að vera í þessum sporum.“

Það var þarna eitt augnablik uppi á Miðfellshálsinum, rétt áður en að ég var að fara að renna mér niður síðustu brekkuna sem ég fylltist svo miklu þakklæti, horfði á þetta magnaða snæviþakta landslag í glampandi sól og hugsaði með mér hvort að þetta væri raunverulega að gerast. Er þetta í alvörunni ég sem stend hér á þessum gönguskíðum? Ég hefði ekki trúað því hálfu ári áður, þegar ég gat ekki enn stigið í fótinn eftir að hafa tognað illa og var endalaust slöpp, að ég ætti eftir að vera í þessum sporum.  En kannski var ég bara orðin of væmin vegna þess að ég hafði tekið eldgamlan ipod með í gönguna og spilaði „random“ lagalista sem innihélt jólalög Baggalúts. Það varð líka til þess að ég hló upphátt nokkrum sinnum á leiðinni.

Nú er ég orðin vel gönguskíðafær. Einn af meginkostunum við að taka þátt í Landvættunum er einmitt að ná færni og eignast rétt búnaðinn fyrir þessar fjórar íþróttir.  Ég fór á skriðsundnámskeið. Ég áttaði mig á því að ég kunni alls ekki að synda skriðsund og hélt nú að það væri jafnvel of seint að læra það. Fyrsta skiptið sem ég æfði skriðsundið komst ég varla milli bakka á Laugardalslauginni jafnvel með blöðkur, mér leið eins og ég væri að kafna.  Ég vonaði bara að enginn væri að horfa á þessa konu sem var bara að reyna að drukkna ekki.  En svo hefur þetta komið smátt og smátt.

„Ég sé mig fyrir mér á pallbíl, með allar græjurnar í skottinu.“

Ég sé mig fyrir mér á pallbíl, með allar græjurnar í skottinu, stinga mér út í vötn og sjó – skíða, hjóla og hlaupa upp fjöll og firnindi eins og enginn sé morgundagurinn.  Það felst svo mikið frelsi í því að stunda náttúruíþróttir. Það er ekkert sem jafnast á við það að vera úti í náttúrunni að hreyfa sig. Þá verður maður einmitt svona væmin, fyllist af þakklæti, orku og gleði.  Þetta skilar sér líka vel inn í hið daglega líf, þessi gleði og jákvæðni hverfur ekkert daginn eftir. Ég er ekki frá því að fjölskylda og vinir hljóti að njóta þess líka, eða ég vona það hið minnsta.